154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026. Með fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar er lögð fram aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu til ársins 2026. Aðgerðaáætlunin hefur tengsl við mörg áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana. Með áætluninni eru forgangsverkefni stjórnvalda í málefnum íslensku skilgreind með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu. Aðgerðaáætlunin skiptist í 19 liði eða verkefni.

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi sem skapa ýmsar áskoranir varðandi notkun íslenskrar tungu. Þar má nefna t.d. fjölgun innflytjenda, auk þess sem enska er yfirgnæfandi tungumál við alla skjánotkun.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir og eru gögn málsins aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta sérstaklega eftirfarandi atriði:

Nefndin fjallaði um íslensku fyrir innflytjendur. Með aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu er lögð áhersla á aðgerðir sem er ætlað að auka aðgengi að íslensku og íslenskunámi fyrir innflytjendur á öllum aldri, bæta gæði íslenskukennslu, auka samræmi og samfellu milli skólastiga og stuðla að inngildingu í íslensku samfélagi. Meiri hlutinn tekur undir það að þessi verkefni séu mikilvæg, enda brýn þörf á að tryggja innflytjendum aðgang að íslensku til að stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu.

Þá fjallaði nefndin um hlutverk framhaldsfræðslunnar. Nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis með vísan til þess að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf er kveðið á um að sí- og endurmenntun verði efld og löggjöf um framhaldsfræðslu endurskoðuð í breiðu samráði til að tryggja að framhaldsfræðslukerfið sé í tilbúið til að takast á við samfélagsþróun. Í fyrirliggjandi tillögu er ekki fjallað beint um hlutverk framhaldsfræðslu og símenntunarmiðstöðva varðandi íslenskuna en meiri hlutinn telur brýnt að nýta þekkingu og reynslu viðurkenndra fræðsluaðila sem starfa um allt land sem byggist á um 25 ára reynslu. Líkt og Símennt bendir á í umsögn sinni er til mikil þekking og reynsla hjá símenntunarmiðstöðvum hvað varðar kennslu og ráðgjöf fyrir innflytjendur en í umsögn þeirra er jafnframt tekið undir margar aðgerðanna og sérstaklega bent á mikilvægi miðlægrar ráðgjafar fyrir þróun íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Meiri hlutinn telur ljóst að framhaldsfræðslukerfið gegni mikilvægu hlutverki í íslenskukennslunni, ekki síst þar sem staðsetning símenntunarmiðstöðva víða um landið stuðlar að góðu aðgengi fyrir einstaklinga og fjölbreytni í samfélagsfræðslu og íslenskunámi í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Ég ítreka líka að samspil símenntunar og háskólanáms er mikilvægt og margar símenntunarmiðstöðvarnar eru einmitt í samstarfi við háskóla í landinu.

Þá fjallaði nefndin um Samevrópska tungumálarammann en í aðgerð 3 er kveðið á um virkjun hans. Ramminn er staðall sem er notaður til að meta færni í tungumálum. Hann auðveldar skólum, fyrirtækjum og stofnunum að meta færni starfsmanna og nemenda. Virkjun tungumálarammans stuðlar að auknu samræmi milli náms og kennslu í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum, innan framhaldsfræðslu og í sjálfsnámi, og skýrir kröfur til annars málshafa og fræðsluaðila. Þess vegna er þessi aðgerð sérstaklega tekin út úr, því segja má að hún tengist öllum aðgerðum áætlunarinnar varðandi nám og kennslu.

Meiri hlutinn áréttar að huga þarf að kynningu á Samevrópska tungumálarammanum þvert á öll skólastig, líkt og bent er á í umsögn frá Miðju máls og læsis, og nýta þá reynslu sem fyrir er af notkun rammans, m.a. hjá símenntunarmiðstöðvum.

Þá vill meiri hlutinn draga fram að í umsögn frá Mími – símenntun er bent á að til viðbótar Samevrópska tungumálarammanum þarf að taka tillit til hins sístækkandi hóps innflytjenda á Íslandi sem er illa læs og þarf í rauninni önnur hæfniviðmið en evrópska tungumálarammann. Þá er sem sagt verið að tala um fólk sem flytur til Íslands og ýmist hefur ekki gengið skóla eða er ekki læst á okkar stafróf.

Fjallað var um viðhorf til íslensku. Líkt og kemur fram í greinargerð með tillögunni er jákvætt viðhorf til íslensku kjarni íslenskrar málstefnu og lykill að árangri aðgerða sem miða að verndun og þróun tungumálsins.

Í umsögn frá Miðju máls og læsis segir að samfélagið sé lykillinn að tungumálinu og stærsta áskorun íslenskrar tungu sé viðhorf samfélagsins til íslensku og hugmyndir um hverjir eigi íslensku og hvernig fólk megi tjá sig á íslensku. Þá er bent á að íslenskukennsla sé ekki sérverkefni skólakerfisins þó að það hafi mikilvægt hlutverk, enda sé umdæmisvandi íslensks máls samfélagslegur.

Meiri hlutinn leggur áherslu á markvissa vinnu til að greina viðhorf og breyta þeim og hvetja til notkunar íslensku í samskiptum.

Nefndin fjallaði um íslensku fyrir börn og ungmenni. Huga þarf að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Í umsögn frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og fleiri er bent á að mikilvægt sé að huga að öllum aldurshópum og gleyma ekki leikskólabörnum og ungmennum í grunn- og framhaldsskólum. Undir þetta tekur meiri hlutinn og bendir leggur áherslu á að ekki sé nóg að huga að starfstengdu námi, það þurfi að huga að öllum aldurshópum. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að eiga samráð við ungt fólk um íslenskuna.

Þá er í nefndarálitinu er kafli sem heitir Umfjöllun um ábendingar um ýmsar aðgerðir í áætluninni og þar vekur meiri hlutinn athygli á ýmsum ábendingum sem fram komu við umfjöllun um málið sem eru gagnlegar við áframhaldandi vinnu án þess að þær kalli á sérstakar breytingar. Má þar nefna umfjöllun um starfstengdan orðaforða og ábendingar um að það gæti verið gagnlegt að Íðorðafélagið kæmi að gerð starfstengdra orðalista sem væru notaðir til að læra sérhæfðan orðaforða á vinnustað.

Þá er bent á að draga þarf úr hindrunum sem felast í því að þurfa að sækja tungumálanámskeið utan vinnutíma og að það varði miklu að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til að læra íslensku á vinnutíma og samhliða starfi en samt mikilvægt að horfa til þess að miserfitt geti verið eftir vinnustöðum að bjóða starfsfólki að mæta á námskeið á vinnutíma. Því þurfi að finna leiðir til að koma til móts við slíkar áskoranir án þess að útiloka einhverja tiltekna hópa samfélagsins frá íslenskukennslu.

Hvað varðar innviði fyrir rafræn námsgögn fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla var bent á að rafrænt námsefni í íslensku sem öðru máli fyrir fullorðna þyrfti líka að vera aðgengilegt öllum í gegnum vefgátt þar sem væri hægt nálgast allt námsefni á einum stað.

Fjallað var um framtíð máltækni og mikilvægi þess að stuðla að auknu aðgengi almennings og atvinnulífs að máltækniinnviðum og tryggja áframhaldandi rannsóknir og þróun í íslenskri máltækni. Mikil og ör þróun hefur átt sér stað undanfarin ár sem fylgja þarf eftir og mikilvægt að muna að framfarir á síðustu árum byggja á áratuga vinnu, áratuga undirbúningi sem þarf að fylgja vel eftir.

Í umsögn var vakin athygli á skorti á framtíðarsýn varðandi tvímálaorðabækur, sem sagt úr erlendum málum á íslensku, og að þar hafi myndast ákveðið tómarúm í íslensku orðabókastarfi. Þetta er svona fylgikvilli þess að orðabækur eru almennt komnar á netið og eru ekki lengur á pappír. Því sé mikilvægt að marka stefnu og tilgreina ábyrgðaraðila fyrir gerð tvímálaorðabóka á íslensku og hefur menningar- og viðskiptaráðuneytið staðfest að þessi ábending verði tekin til nánari skoðunar.

Þá var bent á að sérstaklega þurfi að draga fram bókmenntir og skrif að því er varðar íslensku í samhengi lista og menningar og að skrif á íslensku séu ein af frumforsendum þess að íslenskt mál lifi áfram á tímum alþjóðavæðingar, sem og að stórefla þurfi þýðingar. Auðvitað var bent á mikilvægi þess að allir þeir sem hafa íslenskuna, eru málhafar á íslensku, hafi tækifæri til að skapa á íslensku.

Þá var bent á að samhliða kortlagningu bókasafna, sem er ein aðgerða áætlunarinnar, þurfi að styrkja innviði og tryggja sem besta nýtingu safnkosts og þjónustu við nemendur í skólum. Þá sé æskilegt að samræma verklag við útlán og notkun upplýsinga- og skráningarkerfis hjá öllum skólum þannig að það tryggi að tölfræðin sé sambærileg, að tölurnar séu samanburðarhæfar svo að það sé hægt að bera saman upplýsingar eftir skólum.

Bent var á mikilvægi starfsþróunar þeirra sem kenna íslensku sem annað mál. Meiri hlutinn tekur undir það og ítrekar mikilvægi þess að fjölga kennurum sem hafa fagþekkingu í kennslu íslensku sem annars máls og að það þurfi að fjölga tækifærum þess hóps til starfsþróunar. Horft verði til þess að í reynd sé það hlutverk allra kennara að kenna íslensku.

Þá fjallaði nefndin um fjármögnun aðgerða en verkefni í aðgerðaáætluninni skiptast milli fjögurra ráðuneyta og margra fræðsluaðila. Eðli málsins samkvæmt er þess vegna ákveðnum vandkvæðum bundið að öðlast yfirsýn yfir heildarfjármögnun verkefnanna, en í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 sjást víða áherslur sem tengjast aðgerðaáætluninni.

Meiri hlutinn bendir loks á að náin tengsl eru milli einstakra aðgerða og mikilvægt sé að horfa heildstætt á aðgerðaáætlunina því að ein aðgerð styðji aðra.

Svona samandregið leggur meiri hlutinn áherslu á að tryggja þarf fólki á öllum aldri og á öllum skólastigum aðgengi að íslensku, bæði þeim sem tala íslensku sem fyrsta mál og þeim sem tala hana sem annað mál. Til að það verði mögulegt þarf fjölþættar aðgerðir; þekkingaröflun um kennslufræði íslensks máls, miðlæga ráðgjöf handa öllum kennurum á öllum skólastigum, ráðgjöf handa kennurum sem kenna íslensku sem annað mál og tækifæri til starfsþróunar, meira úrval af námsefni og að það sé aðgengilegt og samræmt stöðumat fyrir öll skólastig og aðgengi að námskeiðum og fjölbreyttu lesefni á fjölbreyttu formi og að alla vega menningarefni á íslensku.

Meiri hlutinn fagnar öllum aðgerðunum í áætluninni og leggur til þrjár nýjar aðgerðir og gerir tillögur að smávægilegum breytingum á öðrum.

Þá ætla ég að fara yfir breytingartillögur meiri hlutans en í fyrsta lagi er lögð til ný aðgerð um þekkingaröflun og ráðgjöf. Forsenda framfara í kennslu er öflun þekkingar um kennslu íslensku sem annars máls og kennslu nemenda sem búa við fjölbreytt tungumálaumhverfi í daglegu lífi. Ég vil kannski bara draga það sérstaklega fram að jafnvel börn og ungmenni sem eiga íslenskuna sem fyrsta mál búa oft við mjög fjölbreytt tungumálumhverfi dags daglega. Þetta verður best gert með því að safna skipulega saman reynslu og rannsaka mismunandi kennsluaðferðir. Greina verður þarfir þeirra fyrir íslenskukennslu sem tala íslensku sem fyrsta mál og þeirra sem tala hana sem annað mál. Mikilvægt er að sinna rannsóknum á máltöku ólíkra aldurshópa, byggja upp fagþekkingu í kennslufræði íslensku sem annars máls og þekkingu á kennslu nemenda á öllum aldri sem búa við fjölbreytt tungumálaumhverfi í daglegu lífi. Á þeim grunni er hægt að auka gæðakröfur, ráðgjöf handa kennurum og kennslu í íslensku og kennslu nemenda sem búa við fjölbreytt tungumálaumhverfi. Í slíkri vinnu gæti falist t.d. reglulegt ráðstefnuhald þvert á skólastig eða inna skólastiga þar sem sjónum væri beint að afmarkaðri viðfangsefnum sem varða íslenskt mál. Í því ljósi leggur meiri hlutinn leggur til að við tillöguna bætist ný aðgerð um áherslu á þekkingaröflun og ráðgjöf sem verði fyrsta aðgerð í áætluninni og ákveðinn stuðningur við eða grundvöllur að öllum hinum aðgerðunum.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breyting á orðalagi í aðgerð 5, um sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli, þess efnis að fram komi að námið verði á háskólastigi og staðlotur verði í boði í öllum landshlutum í samræmi við eftirspurn.

Í þriðja lagi er lögð til breyting er varðar aðgerð 8 um mikilvægi lista og menningar. Lagt er til að orðalagi aðgerðarinnar verði breytt og bætt við að allir sem sinna hvers kyns miðlun séum meðvitaðir um þátt sinn í að efla íslenska tungu.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á aðgerð 9. Lagt er til að aðgerð 9 um aukna talsetningu og textun á íslensku verði skipt í tvær aðgerðir. Annars vegar yrði það aðgerð 9 sem fjallaði um aukna talsetningu og textun sem yrði á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðuneytis. Hins vegar yrði það ný aðgerð sem yrði aðgerð 21 og fjallaði um fræðslu fyrir foreldra og fagfólk um máltöku og málþroska barna sem yrði á ábyrgð mennta- og barnamálaráðuneytis. Með þeirri aðgerð yrði kveðið á um átak í fræðslu handa foreldrum og fagfólki í skólastarfi um mikilvægi þess tungumáls sem börn læra fyrst fyrir málþroska og máltöku barna og ungmenna.

Í fimmta lagi er lögð til ný aðgerð um fræðslu handa innflytjendum þegar börn þeirra hefja skólagöngu í íslenskum skólum. Meiri hlutinn leggur til nýja aðgerð sem snýr að því að finna leiðir til að tryggja foreldrum úr hópi innflytjenda fræðslu og ráðgjöf þegar börn þeirra hefja skólagöngu í íslenskum skólum til að þau fái upplýsingar um skólastarf og aðgengi að kennslu í íslensku sem tengist skólagöngu barnanna. Markmið aðgerðarinnar verði að skoða hvernig megi útfæra slíkt verkefni með áherslu á að miðla íslensku til foreldranna, íslensku sem varðar þá skólagöngu barnanna sérstaklega.

Loks eru í sjötta lagi lagðar til breytingar á tímabili aðgerðaáætlunarinnar þannig að gildistíminn sé frá 2024 en ekki 2023, því að það ár er jú liðið, og þá eru lagðar til nokkrar breytingar tæknilegs eðlis sem þarfnast ekki nánari skýringa.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir og Berglind Ósk Guðmundsdóttir sem ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Þá ritar Dagbjört Hákonardóttir undir með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég hef ég farið mjög hratt yfir álitið. Mér fannst einhvern veginn þegar ég var að undirbúa mig að ég hefði enn styttri tíma en raunin er, en ég held ég hafi samt sem áður komið öllum aðalatriðunum til skila. Mig langar að lokum að þakka sérstaklega þeim gestum sem komu fyrir nefndina og öllum þeim sem sendu umsagnir sem margar voru mjög ítarlegar og virkilega fróðlegar og upplýsandi. Það er augljóst að það er fjöldi fólks í samfélaginu sem leggur sig fram um að vinna vel í málefnum íslenskunnar og að umbótum sem geta tryggt sess íslenskrar tungu til framtíðar.

Svo vil ég einnig, virðulegi forseti, leggja áherslu á það að þau viðfangsefni og þær aðgerðir sem tilgreindar eru í þessari áætlun skipta okkur sem samfélag mjög miklu máli í mörgu samhengi, ekki bara út frá stöðu íslenskunnar heldur líka út frá samvinnu og jafnrétti í íslensku samfélagi því að það er svo mikilvægt ef við ætlum að tryggja jafnan aðgang að öllum þáttum samfélagsins, að öllum stofnunum samfélagsins að þá gerum við sem flestum kleift að nota íslenskuna á jafnréttisgrundvelli.

Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið framsögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu.